Merki Foreldrahúss

Þekkir þú einkennin?

Foreldrum er eðlislægt að vera á varðbergi þegar kemur að velferð barna sinna. Oft eru áhyggjur okkar ástæðulausar en stundum er full ástæða til að vera vakandi fyrir breyttri hegðun og öðrum einkennum sem geta bent til þess að ungmenni séu á rangri leið og jafnvel í aukinni hættu á að leiðast út í neyslu vímuefna. Hér eru nokkur einkenni sem foreldrar ættu að fylgjast með. Ekki hafa of miklar áhyggjur þó einstaka tímabundin einkenni af þessu tagi komi upp en ef þau safnast saman til lengri tíma gæti verið ástæða til þess að grípa í taumana.

Barn forðast bein samskipti

Barnið forðast bein samskipti við fjölskylduna sína, hverfur í burtu á morgnana án þess að spjalla, mætir ekki heim eftir skóla, sést ekki í matartímanum og er lokað inn í herbergi þær fáu stundir sem það er heima. Þegar fjölskyldan er saman er athyglin víðs fjarri. Barnið forðast að mynda augnsamband.

Pirringur

Barnið fer í vörn, bregst illa við „óþægilegum spurningum“ og oft er fátt um svör. Það á erfitt með að halda einbeitingu og gæðastundirnar sem fjölskyldan á saman verða færri og færri.

Nýir vinir

Félagsskapurinn breytist og þú heyrir af nýjum „ósýnilegum“ vinum. Nýju vinirnir eru gjarnan eldri en barnið, samkomustaðirnir breyttir og viðfangsefnin önnur.

Hreinlæti og lykt

Barnið verður hirðulaust um hreinlæti og næringu. Tiltekt í herberginu verður ekki ofarlega á verkefnalistanum. Kannski fylgir barninu ný og framandi lykt.

Leyndarmál og feluleikir

Einföldustu hlutir verða leynilegir, foreldrum „kemur ekki við“ hvað er að gerast í lífi barnsins. Það liggur ekki lengur fyrir hvar barnið er eða með hverjum. Þegar komið er heim hverfur barnið á stundinni inn í herbergi eins og það hafi eitthvað að fela. Allt yfirbragð barnsins verður eins og það sé að varðveita stórt leyndarmál.

Óheiðarleiki og þjófnaður

Peningar og önnur verðmæti fara að hverfa af heimilinu án skýringa. Neysla kostar mikla peninga sem koma ekki af himnum ofan.

Áhugaleysi 

Barnið verður tilfinningalega dofið, sýnir lítil viðbrögð og nennir ekki að taka þátt. Það missir áhuga á skólanum og félagsstarfinu, flosnar upp úr íþrótta- og tómstundastarfi og árangurinn í skólanum versnar.

Líkamleg einkenni

Ef barnið er í einhvers konar neyslu er líklegt að fram komi líkamleg einkenni svo sem þreyta og slen, einbeiting versnar, augasteinarnir þenjast út, augun eru blóðstorkin, svefninn verður óreglulegur og erfiður.

Opin og heiðarleg samskipti er alltaf besta leiðin að hjarta barnanna þinna. Oft er besta leiðin að sannleikanum einfaldlega að spyrja.

Ef þú ert í einhverjum vafa eða ef barnið þitt hefur gengist við því að vera í neyslu er sjálfsagt og gagnlegt að hafa samband við Foreldrahús í síma 511 6160. Einnig er neyðarnúmerið 581 1799 opið á kvöldin og um helgar.