Saga félagsins
Stofnuð í Háskólabíói
Samtökin Vímulaus æska – foreldrasamtök voru stofnuð formlega í Háskólabíói 20. September 1986 að viðstöddu fjölmenni, m.a. forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur. Um 10 þúsund félagsmenn skráðu sig í samtökin á fyrsta starfsárinu.
Fyrstu heimkynnin
Samtökin voru fyrst til húsa í Síðumúlanum í Reykjavík en fluttu fljótlega í Vonarstræti 4b, þaðan fluttu samtökin í, Borgartún 6.
Foreldrasíminn
Á fyrsta árinu var settur á fót Foreldrasíminn sem hafði það hlutverk að veita foreldrum barna í vímuefnavanda fyrsu ráðgjöf. Síminn hefur frá byrjun verið opinn allan sólarhringinn og hefur hringingum í hann fjölgað ár frá ári.
Lion Quest
Vímulaus æska beitti sér fyrir því að tekið var í notkun lífsleikninámskeið Lions Quest fyrir efri bekki grunnskóla, sem þróað hefur verið í Bandaríkjunum.Lionshreyfingin á Íslandi studdi þýðingu og framleiðslu efnisins en Vímulaus æska sá um útgáfu á foreldrabókinni „Að ná tökum á tilverunni“ og dreifði bókinni í 10 ár til allra foreldra barna í 7. bekk grunnskóla.
Foreldranámskeið
Frá upphafi hafði Vímulaus æska forystu um forvarnafræðslu til foreldra og hannaði sérstök foreldranámskeið sem haldin hafa verið vítt og breitt um landið af starfsfólki samtakanna.
Fréttabréf
Frá árinu 1986 hafa samtökin gefið út sérstök fréttabréf sem send hafa verið félagsmönnum og öðru áhugafólki um forvarnastarf. Gefin voru út 2-3 tölublöð af fréttabréfum árlega til ársins 2000. Frá árinu 2004 hafa samtökin gefið út fréttabréf í 100 þúsund eintökum og dreift á öll heimili með dagblöðunum.
Ráðstefnur
Vímulaus æska hefur staðið fyrir fjölda ráðstefna og fræðslufunda um foreldrastarf, fíkniefnamál og forvarnir.
NMN og EURAD
Frá 1986 hefur starfsfólk samtakanna ekið þátt í erlendu samstarfi meðal foreldrasamtaka á Norðurlaöndum, NMN og forvarnasamtaka í Evrópu, undir nafninu EURAD (Evrópa gegn fíkniefnum). Nokkrum sinnum hafa samtökin haldið ráðstefnur á Íslandi undir merkjum þessara samtaka.
Grensásvegur 16
Samtökin Vímulaus æska og Íslenskir ungtemplarar (ÍUT) stofnuðu árið 1993 Fræðslumiðstöð í fíknivörnum (FRÆ). Frá árinu 1993 til 1999 var vímulaus æska með starfsemi sína að Grensásvegi 16 í Reykjavík en þar höfðu einnig aðstöðu ÍUT og FRÆ.
Stöðvum unglingadrykkju
Árið 1994 stóð Vímulaus æska að stofnun átaksins „Stöðvum unglingadrykkju“. Til liðs við átakið gengu síðan 80 stofnanir, samtök og fyrirtæki í landinu sem áhuga höfðu á forvarnastarfi meðal barna og unglinga. Framkvæmdastjóri verkefnisins var Valdimar Jóhannsson. Átakið stóð í 2 ár og áorkaði ýmsu af þeim markmiðum sem því voru sett í byrjun. Foreldrar vöknuðu til vitundar um eigin getu til að koma í veg fyrir unglingadrykkju. Stjórnvöld, sveitarfélög og lögregla hófu kynningarherferð á reglum um útivistartíma barna og unglinga. Landasala til barna og unglinga lagðist að mestu niður og mótshaldarar á útihátíðum hertu reglur um aldursmörk mótsgesta. Vakin var athygli á eftirlitslausum partíum meðal framhaldsskólanemenda og sérstakt átak gert í því að halda áfengislausar skólaskemmtanir.
Lengi muna börnin
Í tengslum við átakið „Stöðvum unglingadrykkju“ gaf Vímulaus æska út foreldrabókina „Lengi muna börnin“ þar sem finna má 102 ráð fyrir foreldra til að vinna forvarnastarf í uppeldinu. Höfundar bókarinnar eru þeir Sæmundur Hafsteinsson og Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingar.
Foreldrahópurinn
Árið 1996 gekk foreldrahópurinn til samstarfs við Vímulausa æsku. Þar voru á ferðinni foreldrar sem allir áttu barn í vímuefnavanda og höfðu staðið saman í því að greiða götu þeirra til bata. Þessi hópur sá síðan m.a. um að koma upp skipulögðu foreldrastarfi með þeim foreldrum sem leituðu til samtakanna vegna vímuefnavanda barna sinna.
Fræðsluefni
Frá byrjun hafa samtökin staðið fyrir útgáfu á fjölbreyttu fræðsluefni í samstarfi við ýmsa aðila. Bæklingar og veggspjöld, auglýsingar og vefsíða eru helstu leiðirnar sem notaðar hafa verið til að fræða fólk um starf og markmið samtakanna.
Foreldrahús
Árið 1999 fluttu samtökin í nýja starfsstöð sem nefnd er Foreldrahús og var til húsa að Vonarstræti 4b í Reykjavík til að byrja með. Með tilkomu hússins varð þjónusta og ráðgjöf til foreldra fjölbreyttari og með tímanum hefur Foreldrahús orðið miðstöð ráðgjafar og námskeiðshalds á vegum Vímulausrar æsku. Foreldrahús er 20 ára í ár 2019.
Námskeið í Foreldrahúsi
Í Foreldrahúsi hefur frá upphafi verið haldin fjöldinn allur af námskeiðum fyrir börn, unglinga og foreldra. Boðið upp á forvarnanámskeið, ráðgjöf og stuðningshópa fyrir foreldra og unglinga. Sérstök sjálfsstyrkingarnámskeið eru fyrir börn og Stuðningsmeðferð fyrir unglinga sem eru nýkomnir úr vímuefnameðferð.
SAFF
Frá árinu 2004 hafa samtökin verið þátttakandi í SAFF (samstarf félagasamtaka í forvörnum) sem stendur m.a. fyrir VIKU 43 í október ár hvert. Þar eru einnig þátttakendur frá 20 öðrum félagasamtökum sem áhuga hafa á vímuefnavörnum.
Samstarfsverkefni
Ennfremur taka samtökin þátt í ýmsum fleiri samstarfsverkefnum í forvörnum, m.a. SAMAN-hópnum og forvarna- og fræðsluhópnum „Náum áttum“. Auk þess hafa samtökin tekið þátt í verkefnum á vegum Reykjavíkurborgar og ráðuneyta.
Borgartún 6
Þann 15. apríl 2008 var tekið í notkun nýtt húsnæði Vímulausrar æsku/Foreldrahúss í Borgartúni 6 í Reykjavík. Það var þáverandi félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sem opnaði nýja Foreldrahúsið að viðstöddu fjölmenni. Flutningi samtakanna og glæsilegri aðstöðu voru gerð skil í sérritinu „Á nýjum stað“ sem dreift var til landsmanna með dagblöðum.
30 ára 2016
Á síðustu 30 árum hafa fjöldamargir foreldrar lagt lið í baráttunni við fíkniefnavandann. Með tilkomu Vímulausrar æsku hefur þetta starf verið markvissara og opnað leið fyrir áhugasama foreldra til sjálfshjálpar eða þátttöku í verkefnum. Án sjálfboðinnar vinnu þessa fólks hefðu samtökin ekki náð að lifa í þessi 30 ár.
Uppeldi og forvarnir
Á afmælisári 2016 hófst útgáfa tímarits samtakanna um uppeldi og forvarnir. Í 1. tölublaði þessa nýja tímarits var m.a. viðtal við nýjan forseta og forsetafrú á Bessastöðum. Blaðið var prentað og dreift til velunnara samtakanna auk þess að vera aðgengilegt á heimasíðunni www.foreldrahus.is.
Foreldrahús 20 ára
Foreldrahús átti 20 ára starfsafmæli árið 2019 af því tilefni heiðraði frú Eliza Reid forsetafrú fyrrum framkvæmdastjóra Foreldrahúss Jórunni Magnúsdóttur fyrir óeigingjarnt starf í þágu foreldra og barna.