Skaðsemi kannabis-neyslu hefur fengið mjög takmarkaða umfjöllun af hálfu flutningsmanna þessarar þingsályktunartillögu, en sú umræða hefur einkum snúist um að afneita tengslum kannabisneyslu við geðrof. Vantað hefur upp á umfjöllun um aðrar skaðlegar afleiðingar kannabis-neyslu, svo sem kannabis-fíknisjúkdóm, sem er útbreitt mein í samfélaginu og veigamikil orsök örorku meðal ungmenna. En auk þess ná margvíslegar skaðlegar afleiðingar kannabisneyslu til mun stærri hóps en þess sem uppfyllir greiningarskilmerki fyrir kannabis-fíknisjúkdóm.
Orsökin fyrir kannabis-fíknisjúkdómi er neysla á kannabis. Um 1 af hverjum 6 neytendum sem hefja neyslu kannabis fyrir 18 ára aldur þróa með sér kannabis-fíknisjúkdóm. Á hinn bóginn fær enginn þennan sjúkdóm sem ekki neytir kannabis. Orsakasambandið er hér hafið yfir allan vafa. Engin leið er að spá fyrir um það hvaða neytendur muni þróa með sér kannabis-fíknisjúkdóm og enginn neytandi kannabis er varinn fyrir þeirri hættu. Á hinn bóginn eru þekktir verndandi þættir gegn því að börn og ungmenni hefji neyslu vímuefna og einn þeirra er neikvætt viðhorf foreldra þeirra til slíkrar neyslu. Þar er hins vegar mjög á brattan að sækja fyrir foreldra um þessar mundir, enda dynur á börnunum gengdarlaus blekkingaráróður og normalisering hvers kyns vímuefnaneyslu, ekki síst kannabis-neyslu. Örðugt getur reynst fyrir foreldra að vara börn sín við skaðsemi kannabis-neyslu, þegar þau geta bent á alls konar heimildir af netinu máli sínu til stuðnings, um skaðleysi kannabis-„plöntunnar“ – og jafnvel heilsubætandi áhrif hennar.
Þegar Velferðarnefnd Alþingis fjallar um hvort leyfa eigi ræktun og notkun kannabis í lækningaskyni verður ekki hjá því vikist að fjalla um núverandi þekkingu á margþættri skaðsemi kannabis-neyslu. Hér með er skorað á Velferðarnefnd Alþingis að leiða þá umræðu til lykta. Í framhaldinu vonast undirritaður til að stjórnvöld snúi sér að krafti að því að styðja við vímuefnaforvarnir í samfélaginu og gangi í lið með foreldrum sem vilja vernda börn sín frá að verða kannabisneyslu og annarri vímuefnaneyslu að bráð. Komið hefur fram í umræðum um þetta þingmál að til standi að kalla erlenda sérfræðinga fyrir Velferðarnefnd vegna þess. Undirritaður vill hér með koma á framfæri ábendingu um einn erlendan sérfræðing sem mikill fengur væri að fyrir nefndina að fá sér til ráðgjafar, en það er Nora Volkow yfirmaður National Institute og Drug Abuse hjá National Institute of Health í Bandaríkjunum. Hún ásamt fleiri höfundum hefur m.a. fjallað um margvísleg heilsufarslega áhrif kannabisneyslu í yfirlitsgrein The New England Journal of Medicine of Medicine, „Adverse Health Effects of Marijuana Use“, sem nálgast má á slóðinni https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4827335/pdf/nihms762992.pdf
Varðandi orsakatengsla milli kannabisneyslu og geðrofs, sem þráfaldlega hefur verið afneitað af hálfu flutningsmanna tillögunnar (og því m.a. haldið fram ítrekað að þau tengsl hafi verið hrakin með vísindarannsóknum) eru nefndarmenn í Velferðarnefnd hér með hvattir til að kynna sér sjálfir núverandi þekkingu um þetta efni. Engilbert Sigurðsson og fleiri hafa m.a. skrifað yfirlitsgrein í Læknablaðið um rannsóknir á tengslum kannabisneyslu og geðrofs, hún nefnist „Eykur notkun kannabis hættu á geðrofi og þróun geðklofa?“ og hana má nálgast á slóðinni https://www.laeknabladid.is/tolublod/2014/09/nr/5262
Hér með er lagt til að nefndin leiti upplýsinga og ráðgjafar hjá Engilbert Sigurðssyni geðlækni og auk þess hjá Valgerði Rúnarsdóttur yfirlækni SÁÁ, sem þekkir vel til kannabisfíknar og afleiðinga hennar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélag. Enn fremur er mælt með að nefndin kalli á sinn fund Berglindi Gunnarsdóttur framkvæmdastjóra Vímulausrar æsku og Rúnu Ágústsdóttur fjölskylduráðgjafa hjá Foreldrahúsi, sem samtökin reka, en þær hafa mikla reynslu af því að styðja foreldra barna sem leiðst hafa út í kannabisneyslu og fjölskyldur þeirra og þekkja vel til ástands þessara mála í samfélaginu. Höfundur er Sigurður Magnason læknir og meðlimur stjórnar Vímulausrar æsku.