Foreldrahús hefur nú lokað vegna sumarleyfa starfsfólks og opnar aftur 2. ágúst.

Rússnesk rúlletta

25.08.2018

Fíkniefnið ‘Xanax’ hefur undanfarin ár valdið fjölda dauðsfalla og gerir enn. Töflurnar innihalda lífshættulega blöndu af öndunarbælandi lyfjum í breytilegum styrk. Uppistaðan er oft um 5.5 mg af benzodiazepam-lyfinu Alpazolam (samanborið við styrkleikann 0.25-0.50 mg í kvíðastillandi töflum), með íblöndun af ópíat-verkjalyfinu Fentanyl. Fentanyl og önnur morfín-skyld verkjalyf hafa bælandi áhrif á öndunarstöðina í heilanum, m.a. með því að hægja á öndun, sem fljótt getur valdið uppsöfnun á koldíoxíði í blóði, sem að lokum veldur meðvitundarleysi. Um leið hafa ópíat-lyf á borð við Fentantyl þau áhrif að hindra þau hvetjandi áhrif sem hækkandi styrkur koldíoxíðs í blóði hefur venjulega á öndunina. Þannig taka þau úr sambandi það stýrikerfi sem stýrir öndun við venjulegar aðstæður. Til vara getur líkaminn varið sig með öðru stýrikerfi, sem er hvetjandi áhrif súrefnisskorts á öndunina, en benzodiazepam-lyf á borð við Alprazolam í stórum skömmtum taka það öryggiskerfi hins vegar úr sambandi. Þetta er ástæða þess að samverkun ópíat-verkjalyfja og benzodiazepin-lyfja er jafn hættuleg og raun ber vitni.

Neysla á ‘Xanax’ virðist vera áhættuhegðun sem líkja mætti við „rússneska rúllettu“, enda getur ein slík tafla hæglega verið banvæn fyrir hvern sem er. Sennilega er þó vanþekking veigamikill þáttur í því að markaður skuli yfirleitt vera fyrir fíkniefni á borð við ‘Xanax’ – í bland við landlæga „normaliseringu“ á vímuefnaneyslu, tísku og þrýsting frá félögunum. Það ætti að vera forgangsmál að ungmenni búi a.m.k. yfir réttum upplýsingum um hættuna sem stafar af neyslu slíkra efna. Fjölskylda Einars Darra Óskarssonar sem lést þ. 25. maí sl. hefur þegar vakið rækilega athygli á þessari hættu (Fréttablaðið 23. júní sl.) og vinnur að forvarnarverkefni sem brýnt er að nái eyrum ungmenna. Vonandi leggjast allir á eitt að styðja við þetta verkefni og að koma réttum upplýsingum á framfæri við börn og ungmenni, sem gætu staðið frammi fyrir slíku vali næst þegar farið er út á lífið.

Pistill eftir: Rúna Ágústsdóttir – fjölskyldu- og vímuefnaráðgjafi